Jórdanía og steinborgin Petra
Í þessari ferð er gengið frá Dana, sem er stærsta friðland Jórdaníu, að fornu steinborginni Petru. Borgin Petra er á heimsminjaskrá UNESCO og á lista sem eitt af 7 undrum veraldar.
Það er einstaklega tilkomumikið að koma gangandi frá sandsteinsfjöllunum sem varða inngang Petru eftir þröngu einstigi til hinnar fornu borgar.
Flogið er í gegnum Ísrael og tækifærið notað til að heimsækja borgina Jerúsalem.
Það verður vonandi hægt að fara þessa ferð vorið 2025.
Leiðsögumaður er Leifur Örn Svavarsson
Verð ferðar er xx kr, miðað við 2 í herbergi og tjaldi.
Hægt er að vera einn í herbergi og tjaldi, en greiða þarf aukalega fyrir það 71.000 kr.
Fjöldi í ferð: 8 til 16 manns.
Flug er ekki innifalið í verði ferðar.
Um ferðina og aðbúnað:
Við skiptum við vandaðan þjónustuaðila og allt starsfólk og aðbúnaður er til fyrirmyndar.
Matur í Jórdaníu er almennt góður og hreinlæti í ferðinni er gott.
Gengnir eru 5 dagar í gegnum friðlandið frá Dana til Petru. Farangur er fluttur á milli tjaldstæða og við göngum með létta dagpoka. Það er tryggt að við höfum góðan aðgang að hreinu drykkjarvatni sem er mjög mikilvægt þar sem sólríkt og heitt er á þessum árstíma.
Við gistum 3 nætur í tjaldi í göngunni. Tjöldunum er tjaldað fyrir okkur og í þeim eru þykkar dýnur, teppi og koddar. Við höfum útiaðstöðu með sólstólum og hitastigið á kvöldin er þægilegt til þess að sitja úti. Tvisvar gistum við í varanlegum “glamping” tjaldbúðum að hætti Bedúína, bæði við Litlu Petru og í Wadi Rum eyðimörkinni. Þar eru rúm í tjöldunum og baðherbergi með sturtu í tjöldunum eða í sameiginlegri aðstöðu við hliðina.
Við erum á 4 stjörnu hótelum við sjóinn í Tel Aviv í byrjun ferðar og í Petru þar sem við höfum sundlaug til þess að kæla okkur eftir gönguna.
í lok ferðar þá gistum við á góðu hóteli við Dauðahafið.
Erfiðleikastig ferðarinnar:
Ferðin er miðlungs erfið gönguferð þar sem lengsti göngudagurinn er 17 km með 750m hækkun. Í lok maí mánaðar þá er sólríkt og nánast engin úrkoma á svæðinu. Athugið að sterk sólin og hátt hitastig um miðjan daginn gerir gönguna erfiðari. Búast má við að hitinn fari í um 24-27°C um miðjan daginn, hitastig sé þægilegt á kvöldin og fari niður í 12-15°C á nóttunni.
Við göngum með létta dagpoka og stoppum reglulega í forsælu. Við höfum asna með sem bera nægt drykkjarvatn og ef þess er óskað þá er velkomið að setjast á bak og starfsfólkið okkar teymir upp brattari brekkurnar á leiðinni.
Dagskrá ferðar:
Dagur 0 - Flogið frá Íslandi.
Dagur 1 - Tel Aviv.
Við förum beint á 4ra stjörnu hótel við sjóinn í miðbæ Tel Aviv. Slakað er á við sundlaugarbakkann, farið á ströndina eða rölt um miðbæinn. Tel Aviv er lifandi bær og margt að skoða. Gaman er að heimsækja gamla hafnarbæinn “Old Jaffa” sem er í um klukkustundar göngu frá hótelinu eða nokkra mínútna ferð með leigubíl.
Gist á 4 stjörnu hóteli við ströndina í Tel Aviv, kvöld- og morgunverður innifalinn en hádegisverður á eigin vegum.
Dagur 2 - Skoðunarferð um Jerúsalem.
Eftir morgunverð er haldið af stað í skoðunarferð um Jerúsalem. Það er ekki verra að taka stutta upprifjun á biblíusögunum fyrir skoðunarferðina okkar um gamla hluta Jerúsalem. Fyrsti viðkomustaður okkar er Ólífu hæðin þaðan sem gott útsýni er yfir borgina. Utan í hæðinni er kirkja “Pater Noster” þar sem Jesús á að hafa kennt fylgjendum sínum faðir vorið og er bænin rituð á leirtöflur á yfir 100 tungumálum. Við fylgjum leiðinni sem Jesús reið á asna inn í Jerúsalem á upprunalega Pálmasunnudeginum þegar mannfjöldinn lagði pálmablöð á göturnar. Við göngum fram hjá fjölda klaustra og kirkna að grasagarðinum Gethsemane. Innanum aldargömul ólífutrén í garðinum kom Jesús með lærisveinunum eftir seinustu kvöldmáltíðina, baðst fyrir og var handtekinn eftir að Júdas hafði bent á hann. Við förum í gegnum Dung/Magharibi hliðið inn í gömlu borgina í Jerúsalem og að grátmúrnum, helgasta stað gyðinga. Uppi á musterishæðinni sjáum við “Dome of the Rock” í miðri Al-Aqsa moskunni. Við fylgjum píslargöngu Jesús “Via Dolorosa” leiðinni sem rómverskir hermenn létu Jesús ganga með krossinn að Golgata. Grafarkirkja Jesús “Church of the Holy Sepulchre” hefur verið helgasti staður kristinna manna og laðar að sér fjölda pílagríma á hverju ári. Þar er hellirinn sem Jesús var lagður til hinstu hvílu, líka steinninn sem líkið var lagt á og þvegið. Við förum í gegnum verslunarhluta gamla bæjarins, Bazaarinn, út í gegnum Jaffa hliðið á gömlu borginni Jerúsalem. Frá Jerúsalem er um klukkustundar akstur í gegnum Vesturbakkann að landamærum Jórdaníu og þaðan um 3 klst akstur til Dana þar sem við borðum kvöldmat og gistum.
Gist á Hóteli í Dana. Kvöld- og morgunverður innifalinn en hádegisverður á eigin vegum.
Dagur 3 - Fyrsti göngudagur, gengið frá Dana til Mansoura.
Það er fallegt að sjá sólarupprásina á brún Sigdalsins mikla þaðan sem hótelið okkar er staðsett. Þorpið sjálft, ofan við hótelið er aldargamalt. Eftir morgunverð er gengið af stað inn í stærsta friðland Jórdaníu. Við göngum eftir brúnum Sigdalsins með útsýni yfir stórbrotið hrjóstrugt landslagið, en dalurinn inniheldur fjögur mismunandi vistkerfi.
Gist í tjöldum sem búið verður að tjalda fyrir okkur. Við fáum dýnur, kodda og teppi. Allur matur innifalinn.
Göngutími 5-7 tímar, vegalengd 15 km, hækkun 260m / lækkun 690m.
Dagur 4 - Gengið frá Mansoura til Furon / Ras Al Feid.
Dagurinn byrjar með klukkustundar langri göngu upp í móti. Við sjáum Sharah fjöllin og yfir Wadi Araba eyðimörkina. Að vanda fáum við te við komuna á tjaldstæðið, setjumst niður og njótum útsýnisins fram að kvöldmat.
Gist í tjöldum sem búið verður að tjalda fyrir okkur. Við fáum dýnur, kodda og teppi. Allur matur innifalinn.
Göngutími 5-7 klst, vegalengd um 15 km - hækkun 563m / lækkun 170m.
Dagur 5 - Gengið frá Furon til Ghour Whedat.
Lengsti göngudagurinn um ein afskekktustu héruð Jórdaníu. Útsýni yfir hrjóstrugar víðátturnar, gilin fyrir neðan okkur og eyðimörkina.
Gist í tjöldum sem búið verður að tjalda fyrir okkur. Við fáum dýnur, kodda og teppi. Allur matur innifalinn.
Göngutími 6-8 klst, vegalengd um 17 km - hækkun 750m / lækkun 920m.
Dagur 6 - Gengið frá Ghour What til Litlu Petru.
Við verðum meira vör við heimafólkið, Bedúínanna, sem eru hirðingjar og flakka um með sauðfé og geitur í fjallshlíðunum, fylgjum götum og vegslóðum í gegnum tjaldbúðir heimamanna.
Þegar við nálgumst Litlu Petru förum við að sjá fornar rústir Nabatean fólksins, vín og ólvíu pressur og mannvirki til þess að safna regnvatni. Við heimsækjum Litlu Petru, sem fornleifafræðingar kalla úthverfi Petru, þar sem fornar hestalestir verslunarmanna áðu á meðan silkileiðin lá þarna í gegn og tengdi saman verslunarleiðir á milli Asíu og Evrópu og einnig niður til Afríku. Á leið okkar um Litlu Petru sjáum við og heimsækjum fornar byggingar meitlaðar inn í steininn. Allur matur innifalinn.
Gist í varanlegum “Glamping” tjaldbúðum þar sem við erum með rúm og baðherbergi í tjöldunum.
Göngutími um 6-7 klst, vegalengd um 14 km - hækkun 610m / lækkun 560m.
Dagur 7 - Gengið frá Litlu Petru til Petru.
Það er gríðarlega tilkomumikið að koma gangandi bakdyramegin inn í Petru. Gönguleiðin er falleg og forn stígurinn víða meitlaður inn í sandsteininn. Það er ógleymanleg sjón þegar við stöndum frammi fyrir “klaustrinu” einni stærstu byggingu Petru sem höggvin er inn í sandsteininn. Við göngum í gegnum Petru og heimsækjum merkar byggingar hennar.
Gist á 4 stjörnu hóteli með sundlaug og allur matur innifalinn.
Göngutími um 6-8 klst, vegalengd um 14 km - hækkun 496m / lækkun 519m.
Dagur 8 - Petra og jeppaferð um Wadi Rum.
Við gefum okkur tíma til þess að taka stuttan hring í Petru um morguninn. Við göngum niður Petra Siq að frægustu byggingu Petru, “The Treasury” áður en við höldum áfram og ökum út í Wadi Rum eyðimörkina. Við förum skoðunarferð á jeppum á milli gríðalegra klettaeyjanna sem rýsa upp úr sandauðninni.
Gist í varanlegum “glamping” tjaldbúðum Bedoúína með rúmum og baðherbergi inn í tjöldunum.
Morgu- og kvöldverður innifalinn, en hádegisverður á eigin vegum.
Dagur 9 - Frá Wadi Rum til Dauðahafsins.
Eftir morgunverð í Bedúína tjaldbúðunum ökum við í um 4 klst að þeim stað yfirborðs jarðar sem lægstur er undir sjávarmáli, Dauðahafinu.
Við slökum á eftir ferðalagið og böðum okkur í brimsöltu Dauðahafinu.
Gist á 5 stjörnu hóteli. Morgun- og kvöldverður innifalinn, en hádegisverður á eigin vegum.
Dagur 10 - Heimferð.
Eftir morgunmat ökum við til baka til Tel Aviv þaðan sem við fljúgum heim.
Innifalið í verði:
Undirbúningsfundur með leiðsögumanni fyrir brottför.
Íslensk leiðsögn.
Tilboð frá hópadeild Icelandair á beinu flugi til Tel Aviv sem í boði verður í takmarkaðan tíma.
Akstur til og frá flugvelli í Tel Aviv.
Gott strandhótel (4ra stjörnu) með morgunverði og kvöldverði í Tel Aviv.
Skoðunarferð um Jerúsalem með staðarleiðsögumanni.
Vegabréfsáritun til Jórdaníu.
Hraðafgreiðsla í gegnum landamæri Ísraels og Jórdaníu.
Deluxe herbergi á Dana Guesthouse með kvöld- og morgunverði.
Enskumælandi staðarleiðsögumaður.
Fylgd Bedúína aðstoðarleiðsögumanna í göngunni.
Múlasnafylgd í göngunni sem getur borið þátttakendur hluta leiðar sé þess óskað.
Flutningur á farangri á meðan á göngu stendur.
Allur matur og drykkjarvatn meðan á göngunni stendur.
3 nætur í tjaldbúðum með dýnum, koddum og teppum.
Deluxe tjald með rúmi og baðherbergi í Bedúína “glamping” tjaldbúðunum.
Hótel gisting með fullu fæði í Petru.
Skoðunarferð á jeppum um Wadi Rum eyðimörkina.
Gisting í “Glamping”, varanlega uppsettar tjaldbúðir í Wadi Rum eyðimörkinni.
5 stjörnu hótel með morgunverð og kvöldverðarhlaðborði við Dauðahafið.
Bað aðgangur við Dauðahafið.
Vatn með mat á hótelum.
Aðgangur að þeim stöðum sem heimsóttir eru í Jórdaníu.
Allur akstur innan Ísrael og Jórdaníu.
Lyfjakista með sérhæfðum lyfjum.
Ekki innifalið í verði:
Flug til og frá Tel Aviv.
Hádegisverður í Tel Aviv og í Jerúsalem.
Aðgangur að kirkjum og öðrum stöðum sem heimsóttir eru í Jerúsalem.
Kvöldverður í “Glamping” tjaldbúðunum í Wadi Rum eyðimörkinni.
Hádegisverður við komu á hótelið við Dauðahafið.
Þjórfé til heimamanna.
Persónuleg eyðsla.
Skattur sem greiddur þegar farið er frá Ísrael og frá Jórdaníu (Um 15 $).
Bókun ferðar:
Hægt er að bóka ferðina með því að senda póst á info@slod.is og greiða í framhaldi af því 50.000 kr staðfestingargjald.
Staðfestingargjald er að fullu endurgreitt ef fella þarf niður ferðina.
Lokagreiðsla er innheimt 2 mánuðum fyrir ferð.